Innlent

Játaði að hafa stolið fimm dýrum úrum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla hafði upp á manni sem grunur beindist að og var hann með fimm úr í tösku sinni.
Lögregla hafði upp á manni sem grunur beindist að og var hann með fimm úr í tösku sinni. Vísir/Vilhelm

Maður hefur játað að hafa stolið fimm dýrum úrum eftir að hafa brotist inn í íbúðarhúsnæði í Njarðvík í gær.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir brotist hafi verið inn um glugga á svölum. Húsráðandi saknaði þar nokkurra muna – þar á meðal heyrnartóla, myndavélar svo og nokkurra sérvalinna úra af gerðinni Rolex, Breitling Bentley og Hugo Boss.

„Lögregla hafði upp á manni sem grunur beindist að og var hann með fimm úr í tösku sinni. Hann játaði að hafa stolið þeim en ekki hinum mununum sem saknað var.“

Klemmdi þrjá fingur

Í skeyti lögreglunnar á Suðurnesjum segir einnig frá vinnuslysi sem varð í fiskvinnslu í umdæminu. Þar hafi starfsmaður sett höndina á belti á færibandi með þeim afleiðingum að þrír fingur klemmdust. Hafi viðkomandi verið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

„Þá varð slys þegar maður var að reyna að tengja uppþvottavél og var að athafna sig undir vaski þegar leiðsla sprakk svo hann fékk yfir sig sjóðandi heitt vatn. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á HSS.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×