Ökumann fólksbíls sem rann út af Reykjanesbraut og valt á hliðina sakaði ekki. Slysið átti sér stað sunnan við afleggjarann að Vogum en éljagangur, snjókoma og fljúgandi hálka var á svæðinu, samkvæmt upplýsingum Brunavarna Suðurnesja.
Tilkynning um slysið barst um klukkan 19:20 í kvöld. Bíllinn rann út af veginum í hálkunni og endaði á hliðinni. Ökumaðurinn var fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en er ekki talinn slasaður.
Bíllinn er talinn töluvert skemmdur og þurfti kranabíl til að flytja hann af vettvangi.