Þrír leikir fóru fram í Lenbjubikar karla í dag, lauk þeim öllum með 5-0 sigrum.
Eins og kom fram hér á Vísi fyrr í dag þá unnu Valsmenn öruggan 5-0 sigur á Vestra. Víkingur Reykjavík og ÍBV gerðu svo slíkt hið sama.
Magni og Víkingur mættust í Boganum á Akureyri í riðli 2 A-deildar Lengjubikarsins. Lærisveinar Arnar Gunnlaugssonar unnu þar öruggan 5-0 sigur eftir að hafa verið 2-0 yfir í hálfleik. Síðustu tvö mörk leiksins komu á síðustu tíu mínútunum. Markaskorara vantar því miður.
Víkingar tylla sér þar með á topp riðilsins sem inniheldur einnig Fram, KA, Fylki og Keflavík. Magni sitja svo á botninum eftir útreið dagsins.
Víkingar leika í Pepsi Max deildinni á komandi leiktíð á meðan Magni leikur í næst efstu deild.
Á Eimskipsvellinum í Laugardal, heimavelli Þróttar, mættust ÍBV og Víkingur Ólafsvík en þau leika bæði í næst efstu deild næsta sumar.
Fór það svo að ÍBV vann öruggan 5-0 sigur eftir að hafa verið 3-0 yfir í hálfleik. Víðir Þorvaðarson skoraði á 18. mínútu leiksins og áður en flautað hafði verið til hálfleiks höfðu þeir Eyþór Orri Ómarsson og Felix Örn Friðriksson bætt við mörkum fyrir þá hvítklæddu.
Í síðari hálfleik bætti Felix Örn við öðru marki sínu og fjórða marki ÍBV áður en Róbert Aron Eysteinsson gulltryggði sigurinn.
ÍBV og Valur deila toppsætinu í riðli 4 A-deildar á meðan Víkingur Ó. er á botninum ásamt Vestra en Stjarnan og Fjölnir eru einnig í riðlinum.
