Fótbolti

Bonmatí vann þriðja árið í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurvegarar kvöldsins.
Sigurvegarar kvöldsins. @ballondor

Þriðja árið í röð var Aitana Bonmatí, leikmaður Barcelona og Spánar, valin besta knattspyrnukona heims. Ousmane Dembélé, leikmaður París Saint-Germain og Frakklands, var þá valinn besti knattspyrnumaður í heimi.

Gullknötturinn (Ballon d'Or) var veittur við hátíðlega athöfn í kvöld. Einnig voru önnur verðlaun veitt eins og venja er orðin.

Hin 27 ára gamla Bonmatí var allt í öllu á miðsvæði Barcelona sem stóð uppi sem Spánarmeistari enn eitt árið. Hún fór einnig í úrslit Meistaradeildar Evrópu en mátti þar þola tap gegn Arsenal og þá komst hún í úrslit Evrópumótsins sem fram fór í sumar en stóð England uppi sem sigurvegari.

Mariona Caldentey (Arsenal og Spánn) var í 2. sæti og þar á eftir kom Alessia Russo (Arsenal og England).

Dembélé var frábær þegar PSG tókst loks að landa sigri í Meistaradeild Evrópu. Jafnframt var hann frábær heima fyrir þar sem Parísarliðið vann enn einn meistaratitilinn. Hinn 28 ára gamli Dembélé naut sín í nýrri stöðu sem framherji og kom með beinum hætti að 51 marki á síðusut leiktíð (35 mörk og 16 stoðsendingar).

Annað árið í röð var Laimine Yamal valinn besti ungi leikmaður í heimi karla megin. Enginn hefur afrekað það áður.Hann átti frábært tímabil og varð Spánarmeistari, bikarmeistari og spænskur Ofurbikarmeistari. Þá varð Spánn Evrópumeistari sumarið 2024.

Alls skoraði Yamal 18 mörk og gaf 25 stoðsendingar í öllum keppnum á síðustu leiktíð.

Hin 19 ára gamal Vicky López, sem spilar með Barcelona og spænska landsliðinu líkt og Yamal, var svo valin besti ungi leikmaðurinn í kvennaflokki.

Ítalinn Gianluigi Donnarumma hlaut hin virtu Yachine-verðlaun en þau fær besti markvörður ársins. Donnarumma vann sömu verðlaun árið 2021.

Hann átti hvað stærstan þátt í að París Saint-Germain tókst loks að vinna Meistaradeild Evrópu. Frammistaða hans var hins vegar ekki nægilega góð til að fá launahækkun í París og því var hann seldur til Manchester City.

Í fyrsta skipti var besti markvörðurinn kjörinn í kvennaflokki. Þar var það Hannah Hampton sem fór með sigur af hólmi. Hún stóð uppi sem Englandsmeistari með Chelsea síðasta vor og gerði svo gott betur þegar hún stóð vaktina í marki Englands sem varð Evrópumeistari í sumar.

PSG var lið ársins í karlaflokki á meðan Arsenal var lið ársins í kvennaflokki. Bæði lið fóru með sigur af hólmi í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð. Luis Enrique, þjálfari PSG, og Sarina Wiegman, þjálfari enska kvennalandsliðsins, voru svo þjálfarar ársins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×