Ekki liggur fyrir hvort einhverju hafi verið stolið þegar brotist var inn í leikskóla í Hafnarfirði síðdegis í gær. Rúða í leikskólanum var brotin og var farið inn um glugga, að sögn lögreglu. Mikið var um útköll vegna ölvunar og hávaða í nótt.
Frekari upplýsingar um innbrotið í Hafnarfirði sem tilkynnt var um skömmu eftir klukkan fimm síðdegis í gær koma ekki fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þar segir aftur á móti frá því að lögreglumenn hafi haft afskipti af manni á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur rétt fyrir klukkan fjögur síðdegis í gær. Sá hafði fengið veitingar en gat ekki greitt reikninginn. Maðurinn var kærður fyrir fjársvik.
Skömmu síðar var tilkynnt um að ökumaður hefði ekið á ljósastaur við Barónsstíg. Ökumaðurinn hljóp af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar. Hann er grunaður um ölvun við akstur og var látinn laus að lokinni sýna- og skýrslutöku. Flytja þurfti bifreiða burt með dráttarbifreið.