Undanþágunefnd Eflingar hefur samþykkt einróma að veita undanþágu frá verkfallsaðgerðum vegna sorphirðu, er fram kemur í tilkynningu frá verkalýðsfélaginu.
Ákvörðunin er sögð hafa verið tekin í samráði við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og með hliðsjón af hættustigi almannavarna vegna kórónuveirunnar. Undanþágan gildir til næstkomandi föstudags og verður endurskoðuð áður en hún rennur út.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir lýstu í dag yfir áhyggjum vegna yfirstandandi og yfirvofandi verkfalla.
„Þetta eru aðgerðir sem geta haft áhrif á viðkvæmustu hópa samfélagsins eins og fólk á hjúkrunarheimilum. Þá getur takmörkuð sorphirða jafnframt dregið úr áhrifamætti sóttvarnaaðgerða,“ sagði í tilkynningu.
Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar kom saman klukkan fjögur í gær þar sem viðbragðsáætlun borgarinnar fyrir hættustig var virkjuð.
Boðað var til fundarins í ljósi þess að fyrsti einstaklingurinn greindist í gær með kórónuveiruna sem veldur Covid-19 sjúkdómnum hér á landi.