Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, er á leiðinni í að minnsta kosti sex mánaða leyfi vegna veikinda. Þetta tilkynnti Rannveig á fundi með starfsmönnum í álverinu á fjórða tímanum í dag. Sigurður Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri fjármála og flutninga hjá Alcan, tekur við starfinu í fjarveru Rannveigar samkvæmt heimildum Vísis.
Fram kom í fréttum þann 12. febrúar síðastliðinn að Rio Tinto hefði til skoðunar að loka álverinu í Straumsvík (ISAL). Fyrirtækið ætli að hefja sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins svo meta megi rekstrarhæfi þess til framtíðar. Álverið er að fullu í eigu Rio Tinto en hjá álverinu starfa um 500 manns.
Starfsmenn álversins hafa átt í kjaradeilu í lengri tíma. Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna í álverinu, tjáði fréttastofu á dögunum að á borðinu væru drög að nýjum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna ISAL. SA og samninganefnd ISAL fái ekki leyfi að utan frá Rio Tinto til að skrifa undir.