Slökkvistarfi í iðnaðarhúsnæði við Vesturvör 36 fer að ljúka að sögn varðstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Nú sé verið í verðmætabjörgun og að sjúga upp vatn auk þess sem gengið er úr skugga um að engar glæður leynist í húsinu. Þegar vinnu slökkviliðsins lýkur verður vettvangurinn afhentur lögreglu.
Eldsupptök eru ókunn en tilkynning um eldinn barst upp úr klukkan þrjú í nótt. Mikil mildi þykir að ekki hafi farið verr en töluverður eldur var í húsinu og stóðu eldtungurnar upp um þakið.

Nokkur fyrirtæki eru í húsnæðinu, meðal annars Sælgætisgerðin Freyja, bátasmiðjan Rafnar og Vélsmiðjan Hamar en eldurinn virðist hafa komið upp í síðastnefnda fyrirtækinu.
Hjartað í fyrirtækinu farið
Slökkvilið fékk tilkynningu um eldinn þegar brunaviðvörunarkerfi fór í gang og tilkynnti öryggisfyrirtæki um að eldur logaði í húsinu.
Mikil eldur var í þaki hússins þegar að var komið og komu slökkviliðsmenn í veg fyrir að eldurinn myndi breiðast frekar út.
Liðsmenn sérsveitar ríkislögreglustjóra komu einnig á vettvang með dróna og mynduðu bygginguna úr lofti, en með sérstakri hitamyndavél var hægt að sjá hvar hitinn og eldurinn var mestur í byggingunni.
Vélsmiðjan Hamar hefur verið starfandi frá árslokum 1998.

Kári Pálsson, eigandi fyrirtækisins, var á vettvangi brunans í nótt og sagði í samtali við fréttastofu að það væri mikið áfall að horfa á hjarta fyrirtækisins brenna.
„Hjartað í fyrirtækinu er bara farið,“ sagði Kári og bæti við að strax í nótt hafi hafist vinna við að finna aðra starfstöð á svæðinu. Þar hafi önnur fyrirtæki verið boðin og búin til þess að hjálpa.
Vélsmiðjan Hamar er með fimm starfstöðvar og þjónustuverkstæði í Hafnarfirði, á Grundartanga, Akureyri, Eskifirði og í Kópavogi en þar er stærsta starfstöðin. Að sögn Kára starfa þar um 60 manns. Hann sagði að fyrirtækið væri tryggt en mesta mildi væri þó að enginn hefði slasast.
