Fótbolti

Barcelona lætur yfirmann knattspyrnumála fara

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eric Abidal við hlið Lionel Messi.
Eric Abidal við hlið Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty

Það er svo sannarlega verið að taka til hendinni í herbúðum spænska stórveldisins þessa dagana. Þjálfarinn farinn, yfirmaður knattspyrnumála farinn og allir leikmenn liðsins nema fimm eru til sölu.

Quique Setién var látinn taka poka sinn á dögunum eftir aðeins átta mánuði sem þjálfari liðsins. Nú er búið að staðfesta brottför Eric Abidal en þessi fyrrum leikmaður liðsins hafði gegnt stöðu yfirmanns knattspyrnumála undanfarin tvö ár.

Hans síðasta verk í starfi var að reka áðurnefndan Setién.

Hinn fertugu Abidal lék með Börsungum frá 2007 til 2013. Árið 2011 greindist hann með æxli í lifur en tókst þó að spila allt fram til ársins 2014. Hann spilaði þó ekki marga leiki og færði sig um set til Mónakó í Frakklandi og svo Olympiakos í Grikklandi áður en skórnir fóru upp í hillu árið 2014.

Alls lék hann 125 deildarleiki fyrir Börsunga og vann til að mynda Meistaradeild Evrópu tvívegis. Þá lék hann 67 landsleiki fyrir franska landsliðið.

Í yfirlýsingu Barcelona segir að félagið og Abidal hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu. Ef til vill eykur þetta líkurnar á að Argentínumaðurinn Lionel Messi verði áfram í herbúðum liðsins en hann lenti upp á kant við Abidal fyrr á leiktíðinni.

„Félagið óskar Abidal alls hins besta í framtíðinni og þakkar honum fyrir fagmennsku, staðfestu og prúðmennsku sína,“ sagði í frekar hefðbundinni yfirlýsingu frá félaginu er brotthvarf Abidal var staðfest.


Tengdar fréttir

Koeman gæti tekið við Börsungum

Ronald Koeman – landsliðsþjálfari Hollands – gæti orðið næsti þjálfari spænska knattspyrnufélagsins Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×