Samninganefndir Sameykis og Strætó bs. undirrituðu kjarasamning um klukkan fjögur í dag. Því verður ekkert af fyrirhuguðum undirbúningi verkfallsaðgerða sem til stóð að hefja fyrir lok þessarar viku.
Eftir því sem fréttastofa kemst næst er nýi samningurinn sambærilegur þeim sem Sameyki gerði við Faxaflóahafnir. Allir sem munu starfa samkvæmt samningnunum mega því búast við 90 þúsund króna launahækkun á samningstímanum, í samræmi við ákvæði Lífskjarasamningsins.
Sjá einnig: Segir að ekki sé tímabært að afstýra verkföllum
Starfsmenn Strætó höfðu fyrirhugað að ráðast í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir fyrir lok þessarar viku. Hefðu þær verið samþykktar má ætla að þær hefðu hafist um tveimur vikum eftir að niðurstöður lægju fyrir. Nýundirritaður kjarasamningur verður þess í stað borinn undir félagsmenn.
Þetta eru ekki einu tíðindin sem borist hafa af kjaramálum Sameykis í dag. Samkomulag náðist í gærkvöldi í kjarasamningsviðræðum BSRB við viðsemjendur um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu, en Sameyki er aðildarfélag BSRB. Þetta er talinn stór áfangi, en áður hafði samkomulag náðst um styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu.

