Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hjá Sveitarfélaginu Ölfuss að auglýsa eftir dagmæðrum til starfa þá hefur það ekki tekist. Á meðan eru börn sem komast ekki á leikskóla heima. Til að bregðast við ástandinu hefur bæjarráð Ölfuss samþykkt að taka upp heimagreiðslur, þ.e. að borga þeim foreldrum, sem eru ekki með börnin sín í leikskóla eða dagmóður 41.600 krónur á mánuði. Sama gildir um einstæða foreldra og námsmenn, sem fá aðeins hærri upphæð, eða 48.000 krónur á mánuði.
Grétar Ingi Erlendsson er formaður bæjarráðs Ölfuss. „Núna erum við blessunarlega búin að finna einhverjar lausnir í þessu, búin að fjölga leikskólaplássum en erum líka búin að vera að reyna að fá fleiri dagforeldra til starfa í sveitarfélaginu en viðbrögð við auglýsingum hafa ekki verið eins og við hefðum viljað“, segir Grétar Ingi.
Því var ákveðið að koma til móts við foreldra og borga þeim fyrir að vera með börnin heima frá því að fæðingarorlofi líkur.
.
