Ríkisstjórnin hefur samþykkt að réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fari úr þremur mánuðum í sex á sama tíma og allt stefnir í að þúsundir fari á atvinnuleysisbætur. Hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði og greiðslur launa í sóttkví halda áfram. Rætt verður við félagsmálaráðherra um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 og viðbrögð ferðaþjónustunnar fengin við þessum tíðindum.
Farið verður til Grindavíkur og athugað hvort skjálftinn síðdegis í dag hafi hrellt bæjarbúa, rætt við skattrannsóknarstjóra sem hefur fengið gögn frá Airbnb um 25 milljarða króna greiðslur til þeirra sem leigja íbúðir sínar út á Íslandi og fjallað um stöðu Íslands sem áhættusvæðis vegna faraldurs kórónuveirunnar.
Að auki verður rætt við sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem segir vonbrigði að ekki hafi tekist að ráða í öll stöðugildi á leikskólum borgarinnar þegar atvinnuleysi er að aukast.
Þetta og margt fleira í þéttum kvöldfréttatíma á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis kl. 18:30