Alþingi kemur aftur saman klukkan 10:30 í dag eftir sumarfrí. Um svokallað síðsumarsþing er að ræða, eða þingstubb, og ætlað er að það muni standa yfir í um viku.
Við upphaf þingfundar í dag mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytja Alþingi munnlega skýrslu um stöðu mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í kjölfarið verða umræður um skýrsluna.
Eftir skýrsluumræðuna mun Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mæla fyrir tillögu um breytta fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022. Þingið mun síðan ræða fjármálastefnuna og ýmis kórónuveirutengd mál næstu daga.
Hnappar fluttir í hliðarsali
Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerða í Alþingishúsinu svo að hægt sé að fylgja sóttvarnareglum. Til að mynda hefur var ákveðið að stækka enn frekar það svæði á 2. hæð Alþingishússins sem ætlað er til þingfunda. Þá verða fundir nefnda alla jafna fjarfundir og gestir taka þátt í gegnum fjarfundabúnað.
Í þingsal verða sæti fyrir 27 þingmenn og ráðherra. Aðrir ráðherrar og þingmenn fá sæti í hliðarsölum. Þá verður sú breyting að atkvæðagreiðsluhnappar þeirra þingmanna og ráðherra sem fá sæti í hliðarsölum verða fluttir á þau borð sem koma þar í þeirra hlut. Skjáir verða í hliðarsölum sem gerir þingmönnum, sem þar setjast, mögulegt að fylgjast með ræðum í salnum.
Að síðsumarsþinginu loknu verður þingi slitið en setning 151. löggjafarþings verður síðar en almennt er gert ráð fyrir, eða 1. október