Innlent

Þor­steinn Már sagður vera með réttar­stöðu sak­bornings

Sylvía Hall skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Vísir/Vilhelm

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er sagður vera á meðal sex núverandi og fyrrverandi starfsmanna fyrirtækisins sem hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara. RÚV greinir frá þessu en samkvæmt heimildum þeirra snýr rannsóknin meðal annars að meintum mútugreiðslum til embættismanna.

Greint var frá því fyrr í sumar að yfirheyrslur hefðu farið fram og staðfesti Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari og fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, við Kjarnann að hann hefði haft réttarstöðu grunaðs á Íslandi frá því í nóvember.

Samkvæmt heimildum RÚV eru starfsmennirnir sem um ræðir þau Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri félagsins, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna Bryndís Baldvins McClure, lögfræðingur Samherja, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu og Jóhannes Stefánsson.

Þá er greint frá því að rannsóknin snúi að ætluðum brotum á ákvæðum hegningarlaga sem snúa að mútugreiðslum til embættismanna og starfsmanna fyrirtækja, peningaþvætti og ákvæðum auðgunarbrotakafla hegningarlaga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×