Erla Björg Gunnarsdóttir er nýr fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Hún tekur við af Hrund Þórsdóttur sem lét af störfum í gær. Erla hefur unnið á fréttastofunni frá 2013 og var starfandi fréttastjóri á tímabili.
Erla mun vinna við hlið Kolbeins Tuma Daðasonar fréttastjóra Vísis en alls starfa rúmlega 50 manns á fréttastofunni.
„Ég býð Erlu Björg velkomna til starfa og hlakka mjög til að vinna með henni sem fréttastjóra,“ segir Þórir Guðmundsson ritstjóri Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.
Þórir kynnti í morgun breytingar sem fela í sér aukna áherslu á miðlun frétta á Vísi samfara áherslu á kvöldfréttir Stöðvar 2 á virkum dögum en dregið verður úr lengd kvöldfréttatímans um helgar. Að meðaltali lesa um 200 þúsund notendur Vísi á degi hverjum og 50 – 70 þúsund manns fylgjast með kvöldfréttum Stöðvar 2 auk tuga þúsunda sem hlusta á fréttir á Bylgjunni.
„Við erum á fullri ferð að aðlagast þeirri alþjóðlegu þróun að fólk vill vita hvað er að gerast um leið og það gerist,“ segir Þórir.
„Okkar áhersla verður á það eins og í upphafi að Vísir verði fyrstur með fréttirnar. Við ætlum áfram að vera með fréttir yfir daginn á Bylgjunni og í kvöldfréttum á Stöð 2, þar sem áhersla verður á beinar útsendingar af vettvangi, fréttir af þjóðmálum og að segja sögur af fólki.“