Veður

Hægir vindar og víða bjart­viðri

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. Vísir/Vilhelm

Hægir vindar og bjartviðri eru ríkjandi í dag, en dálitlar skúrir verða þó fram eftir degi vestantil.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að í nótt og á morgun nálgast landið skil úr vestri og fer að hvessa af suðri.

„Allhvass vindur eða hvassviðri eftir hádegi á morgun á Vesturlandi, en eitthvað hægari um landið austanvert. Skilunum fylgir rigning sunnan- og vestanlands en lengst af verður þurrt norðaustantil.

Það sem eftir lifir vikunnar er síðan útlit fyrir suðvestan strekking víðast hvar og einhverja úrkomu, en þó dregur úr vætu og birtir heldur til er líður að helgi.

Skammt er þó stórra högga á milli og útlit er fyrir lægðagang í kringum landið í næstu viku.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Vaxandi sunnanátt vestantil, 13-20 m/s eftir hádegi og hvassara í vindstrengjum við fjöll, en lengst af hægari vindur um landið austanvert. Rigning sunnan- og vestanlands, en bjartviðri og þurrt að kalla á Norðausturlandi. Hiti 7 til 12 stig.

Á fimmtudag: Suðvestan 8-15 og rigning eða skúrir, en úrkomulítið norðaustantil. Hiti 7 til 13 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á föstudag: Suðvestlæg átt, 8-15, en hægari vindur austantil. Smáskúrir vestanlands, en annars bjart með köflum. Hiti 7 til 12 stig.

Á laugardag: Stíf sunnan- og suðvestanátt og rigning sunnan- og vestantil. Hægari og úrkomulítið norðaustan- og austanlands. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag: Útlit fyrir stífa suðvestanátt og bjartviðri, en stöku skúri um landið vestanvert. Kólnar heldur.

Á mánudag: Líklega allhvöss sunnan- og suðaustanátt og rigning um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×