Veðurstofan spáir suðvestan 5 til 13 metrum á sekúndu og skúrum í dag, en víða léttskýjað austantil á landinu. Hitinn verður á bilinu 7 til 13 stig.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að svipað veður verði á morgun, en þó heldur minni úrkoma.
„Um kvöldið fer síðan að rigna vestanlands með vaxandi sunnanátt.
Stíf suðvestanátt og rigning eða skúrir á laugardag, en áfram þurrt á Austurlandi. Á sunnudag er búist við að lægð fari norðaustur yfir landið og henni fylgir væntanlega hvassviðri og talsverð rigning.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Suðvestan 8-13 m/s og dálítil súld V-til, en víða léttskýjað um landið A- vert. Vaxandi sunnanátt með rigningu V-lands um kvöldið. Hiti 8 til 13 stig.
Á laugardag: Suðvestan 13-18 og rigning eða skúrir, en hægari og bjart veður A-lands. Heldur kólnandi.
Á sunnudag: Gengur í hvassa suðlæga átt með talsverðri rigningu, hiti 4 til 10 stig.
Á mánudag: Norðvestanátt með rigningu, slyddu eða snjókomu um N-vert landið, en styttir upp sunnan heiða. Kólnandi veður.
Á þriðjudag (haustjafndægur): Austlæg átt og úrkomulítið. Hiti 1 til 5 stig að deginum, en um eða undir frostmarki á N- og A-landi.
Á miðvikudag: Útlit fyrir norðaustanátt með stöku skúrum eða éljum.