220 nemendur 7. bekkja í fimm skólum geta ekki þreytt samræmd könnunarpróf vegna kórónuveirunnar. Nemendunum er boðið að taka prófin á varaprófdögum dagana 12. og 13. október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menntamálastofnun.
Samræmdu prófin í 7. bekk hófust í dag. Um 4.300 nemendur í 155 skólum þreyta próf í íslensku í dag. Könnunarpróf í stærðfræði fer fram á morgun. Samræmd próf verða svo lögð fyrir 4. bekk í næstu viku.
Framkvæmd prófanna hefur gengið vel, að því er segir í tilkynningu Menntamálastofnunar. Hluti nemenda í 7. bekk hafi þó ekki átt kost á að þreyta prófin í dag vegna kórónuveirunnar, eða 220 nemendur í fimm skólum. Ætla má að flestir umræddra nemenda séu í sóttkví en talsvert hefur borið á því að starfsfólk og nemendur í grunnskólum hafi greinst með veiruna undanfarna daga.
Nemendum sem ekki geta þreytt prófin nú er boðið að taka þau á varaprófdögum 12. og 13. október. Ef skólar geta ekki haldið próf á varaprófdögum verða nýir prófdagar ákveðnir.
„Það er skiljanlegt að foreldrar og nemendur hafi áhyggjur af stöðunni en Menntamálastofnun hefur lagt mikið upp úr því að eiga gott samtal við alla aðila skólasamfélagsins og unnið að lausnum í samráði við þá. Þá hefur stofnunin verið í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið til að undirbúa fyrirlögnina sem best,“ segir í tilkynningu Menntamálastofnunar.