Átta nemendur við Tjarnarskóla hafa greinst með kórónuveirusmit. Fjórir kennarar og ritari í skólanum smituðust af veirunni í síðustu viku og voru allir starfsmenn og nemendur skólans í kjölfarið sendir í sóttkví. Þetta staðfestir skólastjóri Tjarnarskóla í samtali við Vísi.
Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, segir að óvíst sé hvort nemendurnir hafi smitast í skólanum. „Það er ekkert hægt að segja okkur hvort þau hafi smitast í skólanum þótt það séu mestar líkur á því.“
Nemendur í Tjarnarskóla eru 60 talsins, allir í 8., 9. og 10. bekk. Aðrir nemendur og starfsfólk hafa nú lokið sóttkví og fóru í skimun í gær að sögn Margrétar. Þrátt fyrir það mun skólastarf ekki hefjast á mánudag með eðlilegum hætti en aðeins þrír kennarar skólans eru ekki í einangrun, af sjö kennurum sem starfa við skólann.
„Við höfum verið alla vikuna með fjarnám sem hefur gengið ágætlega í höndum þessara þriggja, svo hafa þessir sem eru veikir líka verið á hliðarlínunni að hjálpa til, eftir því sem heilsan hefur gefið tilefni til,“ segir Margrét.