Erlent

Vilja fá tönn sem Attenborough gaf prinsinum aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
David Attenborough hitti fjölskyldu Vilhjálms um helgina. Georg heldur á tönninni umdeildu.
David Attenborough hitti fjölskyldu Vilhjálms um helgina. Georg heldur á tönninni umdeildu. Breska konungsfjölskyldan

Yfirvöld á Möltu munu mögulega krefjast þess að beingervingi hákarlatannar verði skilað til landsins. Hinn víðfrægi David Attenborough gaf Georg prinsi tönnina en hann fann hana í fríi á Möltu fyrir rúmum fimmtíu árum. Konungsfjölskylda Bretlands birti myndir af fundi Attenborough og Vilhjálms prins og fjölskyldu hans um helgina.

Þar mátti finna mynd af þeim Georg og Loðvík dást að tönninni sem Attanborough gaf Georg.

Tönnin er úr risahákarli sem synti um heimsins höf fyrir milljónum ára. Hákarlategund þessi kallast Carcharocles megalodon.

José herrera, menningarráðaherra Möltu, hefur heitið því að rannsaka hvort skila eigi tönninni. Hvort hún eigi að vera til sýnis þar sem hún fannst. Í samtali við Times of Malta sagðist hann ætla að koma þessu ferli af stað sem fyrst.

Finna mætti mikil menningarverðmæti frá Möltu víðsvegar um heiminn og mikilvægt væri að fá þau aftur heim.

Samkvæmt frétt Guardian eru steingerðar megalodon tennur tiltölulega algengar og má finna þær víðsvegar um heiminn. Ástæðan er sú að tennur losnuðu reglulega úr hákörlunum þegar þeir stækkuðu. Yfir ævina losnuðu þúsundir tanna úr hákörlum þessum.

Breska konungsfjölskyldan stendur frammi fyrir fjölmörgum kröfum um að skila menningarverðmætum, sem sumum var stolið af nýlenduherrum eða jafnvel hermönnum.

Meðal þeirra má nefna Koh-i-noor, heimsins stærsta demant, og Rósettusteininn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×