Hildur Björg Kjartansdóttir mun ekki leika með sínu nýja liði Val næstu vikurnar eftir að hún þumalbrotnaði á æfingu.
Valskonum var fyrr í dag úrskurðaður 20-0 sigur gegn Breiðabliki sem notaði ólöglegan leikmann þegar liðin mættust í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar. Hildur Björg lék þann leik en mun missa af leikjum næstu 3-4 vikurnar vegna meiðslanna.
„Ég lenti bara í samstuði á æfingu um helgina. Ég komst svo að því á sunnudag að ég væri með brotinn þumal. Það er talið að þetta taki 3-4 vikur að gróa en það verður endurskoðað í næstu viku. Á meðan er ég í gifsspelku og þjálfa vinstri höndina,“ sagði Hildur létt við Vísi.
Hildur, sem var valin körfuboltakona ársins 2018, verður því utan vallar á laugardaginn þegar Valur sækir Fjölni heim og kemur líklega til með að missa af alls fjórum leikjum.