Stjórn Snigla bifhjólasamtaka lýsir yfir „fullkomnu vantrausti“ til Vegagerðarinnar og forstjóra hennar, Bergþóru Þorkelsdóttur, í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kveiks um ástand vegakerfis á Íslandi í kvöld.
Á meðal þess sem fjallað var um í Kveik var banaslys sem varð á Kjalarnesi í sumar þegar bifhjól og bíll skullu saman. Tvö létust í slysinu og einn slasaðist. Böndin bárust fljótt að malbikinu sem lagt hafði verið á umræddum vegkafla og þótti of sleipt. Nokkrum dögum eftir slysið var lagt nýtt malbik á veginn þar sem slysið varð.
Bergþóra sagði í Kveik að brugðist hefði verið við kvörtunum til Vegagerðarinnar vegna vegarins með því að setja upp hálkuviðvörunarmerki. Þá væri það mat Vegagerðarinnar að bæði verktaki og eftirlitsaðili hafi brugðist í málinu. Kveikur hefur jafnframt eftir heimildum sínum að vegfarendur hafi hringt í Vegagerðina strax á laugardeginum fyrir slysið, sem varð á sunnudegi, og varað við hálku á veginum.

Sniglar fullyrða í yfirlýsingu sinni nú í kvöld að Vegagerðin hafi ekki brugðist við kvörtunum um að malbikið á umræddum vegkafla væri hættulegt. Þá segja samtökin að Vegagerðin hafi ekki sett upp hálkuviðvörunarmerki fyrir slysið.
„Fleiri slys hafa orðið á hringtorgum í borginni sem ítrekað hefur verið kvartað undan. Í dag hafa hálkuskilti verið sett upp við flest ef ekki öll þessi hringtorg í tilraun til að losa Vegagerðina undan ábyrgð í stað þess að malbika upp á nýtt með réttum hætti,“ segir í yfirlýsingu Snigla.
„Stjórn Snigla lýsir fullkomnu vantrausti til Vegagerðarinnar og forstjóra Vegagerðarinnar enda ljóst að fyrirheit um betri vinnubrögð eru ekki annað en orðagjálfur. Fyrir hönd okkar félaga getum við ekki fallist á að lífi okkar sé stofnað í hættu vegna vanhæfni.“