Þrátt fyrir að hafa ekki tekið þátt í úrslitakeppni NBA-deildarinnar fær Avery Bradley, leikmaður Los Angeles Lakers, meistarahring.
Bradley var í stóru hlutverki hjá Lakers í vetur en fór ekki með liðinu til Orlando í Flórída þar sem lokaleikir tímabilsins og úrslitakeppnin fóru fram. Bradley vildi ekki gera neitt sem gæti stofnað heilsu fjölskyldu sinnar í hættu.
Lakers er ekki búið að gleyma framlagi Bradleys í vetur og hann fær hring eins og leikmenn NBA-meistara fá jafnan.
Bradley lék 49 leiki í vetur, þar af 44 í byrjunarliði. Í þeim skoraði hann 8,6 stig að meðtali og tók 2,3 fráköst. Þá var Bradley einn besti varnarmaður Lakers í vetur.
Þrátt fyrir að vera ekki á staðnum fylgdist Bradley grannt með gangi mála hjá Lakers-liðinu í Orlando og var í reglulega sambandi við samherja sína.
Bradley lék með Boston Celtics fyrstu sjö ár sín í NBA. Hann hefur einnig leikið með Detroit Pistons, Los Angeles Clippers og Memphis Grizzlies.