Skoðun

Þegar lífið fer á hvolf

Katrín Edda Snjólaugsdóttir skrifar

Greining lífsógnandi sjúkdóms setur tilveru þess sem veikist og fjölskyldu hans á hvolf. Í því ferli sem tekur við er viðeigandi að beita hugmyndafræði líknarmeðferðar.

Margir tengja orðið líkn við dauða og að líknarmeðferð sé einungis veitt er þeim sem eru dauðvona en í raun snýst líknarmeðferð um lífið sjálft. Þess vegna vilja margir frekar kalla hana stuðningsmeðferð en líknarmeðferð, þar sem stuðningsmeðferð er í huga margra mildara orð og auðveldara að tengja það frá dauðanum. Líkn er í raun afar fallegt hugtak sem felur í sér að vilja lina þjáningar og er því í sjálfu sér ekki tengd dauðanum heldur lífinu sjálfu þó svo litið sé á dauðann sem eðlilegt ferli.

Samkvæmt klínískum leiðbeiningum Landspítalans um líknarmeðferð hefur meðferðin þróast frá því að vera eingöngu meðferð sem beitt er við lífslok, í meðferð sem er veitt í öllu sjúkdómsferlinu og hefst við greiningu á lífsógnandi og alvarlegum sjúkdómi. Markmið hennar er að sjá fyrir, fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, félagslegri og andlegri vanlíðan og styðja við bestu mögulegu lífsgæði. Þannig er hægt að veita líknarmeðferð samhliða læknanlegum sjúkdómi og snýr þá meðferðin að lina einkenni en vægi líknarmeðferðar eykst síðan eftir framgangi sjúkdóms.

Samtal um óskir og væntingar einstaklingsins er mikilvægur þáttur líknarmeðferðar, þar sem rætt er um við hverju megi búast og hvað er einstaklingnum mikilvægast. Í slíku samtali fær einstaklingur með lífsógnandi sjúkdóm tækifæri til ræða við fjölskyldu sína og heilbrigðisstarfsfólk um óskir sínar og lífsgildi sem hafa á að leiðarljósi í ákvörðun um umönnun og meðferð. Mikilvægt er að það samtal eigi sér stað áður en einstaklingurinn verður of veikur til að taka ákvarðanir.

Líknarmeðferð snýr ekki eingöngu að þeim veika heldur felur hún einnig í sér að meta líðan og þarfir fjölskyldunnar og styðja hana við að takast á við breyttar aðstæður með áherslu á lífsgæði. Líknarmeðferð felur ekki í sér að flýta yfirvofandi dauða heldur að hlúa heildrænt að þeim veika og aðstandendum hans. Nálgun hennar er einstaklingsmiðuð og felur í sér að draga úr einkennum eins og verkjum og veita stuðning í samræmi þarfir þeirra sem hana hljóta. Líknarmeðferð lýkur ekki við andlát heldur felur hún einnig í sig eftirfylgd við þá sem eftir lifa.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur í líknarráðgjafarteymi Landspítalans.

Heimild: Landspítali (2017). Klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×