Yfirvöld í Noregi hafa komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi gert árás á tölvukerfi norska þingsins í sumar. Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, tilkynnti þessa niðurstöðu í dag og sagði að málið væri mjög alvarlegt. Það væri þó enn til rannsóknar og lögreglan segist ekki vilja tjá sig um rannsóknina að svo stöddu, samkvæmt frétt NRK.
Søreide sagði að þó rannsóknin standi enn yfir búi ríkisstjórnin yfir upplýsingum sem vísi til Rússlands.
Hún sagði einnig að það væri mikilvægt að draga Rússa til ábyrgðar vegna árásarinnar.
Umrædd árás var gerð þann 24. ágúst og öðluðust tölvuþrjótar aðgang að tölvupóstum einhverra þingmanna og starfsmanna þingsins. Árásin var þó stöðvuð fljótt.
Ríkisstjórn Noregs hefur unnið að því að auka öryggi opinberra tölvukerfa og hefur sömuleiðis ráðlagt forsvarsmönnum fyrirtækja að fylgja ráðleggingum Netvarna norska ríkisins.
Sérfræðingur sem NRK ræddi við segir þingið með gott öryggiskerfi en þrátt fyrir það sé það myndarlegt skotmark fyrir tölvuþrjóta.
Árásin á þingið virðist hafa verið gerð í kjölfar þess að Norðmenn vísuðu rússneskum erindreka úr landi vegna njósna. Sá var viðstaddur þegar norskur maður var handtekinn við að reyna að afhenda honum leynileg gögn.
Nokkrum dögum síðar vísuðu Rússar svo háttsettum erindreka frá Noregi úr landi.