Innlent

Dómur í kyn­ferðis­brota­máli gegn barni ó­merktur og sendur aftur til Lands­réttar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hæstiréttur sendi málið aftur til Landsréttar.
Hæstiréttur sendi málið aftur til Landsréttar. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Landsréttar yfir manni sem hafði verið sakfelldur fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, að hafa haft barnaklám í vörslum sínum og fíkniefnalagabrot. Stúlkan var á leikskólaaldri. Taldi Hæstiréttur að verulegir annmarkar hefði verið á aðferð sönnunarmats í dómi Landsréttar. Því hafi verið óhjákvæmilegt að vísa málinu aftur til Landsréttar.

Í október á síðasta ári sýknaði Héraðsdómur Reykjaness manninn af brotunum gegn stúlkunni, en sakfelldi hann fyrir hin. Landsréttur sakfelldi manninn hins vegar fyrir alla ákæruliði í janúar á þessu ári.

Maðurinn áfrýjaði dóminum og í skaut Ríkissaksóknari því til Hæstaréttar þann 21. apríl síðastliðinn. Fyrir Hæstarétti krafðist maðurinn þess aðallega að vera sýknaður af ákærum fyrir brot gegn stúlkunni og vegna vörslu barnaklámsins, en ákæruvaldið fór fram á refsingu þyngri þeim þremur árum sem Landsréttur hafði dæmt manninn til að afplána.

Hæstiréttur taldi hins vegar að þeir annmarkar sem voru á aðferð Landsréttar til sönnunarmats hafi verið slíkir að óhjákvæmilegt hafi verið að vísa því aftur þangað.

„Það skal áréttað að hér hefur aðeins verið dæmt um þá aðferð sem beitt var við sönnunarmatið án þess að nokkur afstaða sé tekin til þess hvort ætlaðar sakir á hendur ákærða teljist sannaðar,“ segir í dómi Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×