Erlent

Ætla að veita geislavirku vatni út í Kyrrahafið

Samúel Karl Ólason skrifar
Um er að ræða um 1,2 milljón tonn af vatni.
Um er að ræða um 1,2 milljón tonn af vatni. EPA/KIMIMASA MAYAMA

Yfirvöld í Japan ætla að veita rúmlega milljón tonnum af geislavirku vatni úr Fukushima kjarnorkuverinu út í sjó. Nærri því áratugur er liðinn frá því að kjarnorkuverið skemmdist í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju árið 2011. Síðan þá hefur gífurlegt magn af geislavirku vatni safnast upp en vatn var notrað til að koma í veg fyrir að kjarnaofnar versins bráðnuðu.

Til hefur staðið að hleypa vatninu út í Kyrrahafið um nokkuð skeið en heimamenn hafa mótmælt því harðlega. Sjómenn á svæðinu staðhæfa að það muni rústa iðnaði þeirra. Fréttir af þessum deilum bárust einnig í fyrra en nú virðist sem að endanleg ákvörðun hafi verið tekin.

Í frétt Reuters segir að búist sé við að ákvörðunin verði tilkynnt seinna í mánuðinum.

Í frétt Guardian er vitnað í japanska fjölmiðla um að til standi að byrja að losa vatnið árið 2022 og að það muni taka minnst áratug. Vatninu hefur verið safnað saman í rúmlega þúsund tanka við orkuverið og er um 1,2 milljón tonna að ræða.

Þar segir einnig að umhverfisverndarsamtök séu einnig mótfallinn áætluninni. Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa sömuleiðis mótmælt henni og segja hana ógna lífríki svæðisins.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin sendi sérfræðinga til Fukushima í apríl. Þeir sögðu að áætlun Japan ætti að ganga upp. Sambærilegum aðferðum væri beitt við kjarnorkuver víðsvegar um heiminn.

Forsvarsmenn Tokyo Electric, fyrirtækisins sem rak Fukushima, segja að vatnið verði hreinsað af öllum geislavirkum efnum, nema tritíum. Það er vetnisísótópi sem erfitt er að sía úr vatni og er í senn talið tiltölulega meinlaust. Samkvæmt Reuters er tritíum iðulega í vatni sem veitt er úr kjarnorkuverum.


Tengdar fréttir

Vill að Japanir hætti nýtingu kjarnorku

Nýr umhverfisráðherra Japans vill að kjarnaofnum landsins verði lokað til að koma megi í veg fyrir að stórslys á borð við það sem varð í Fukushima árið 2011 endurtaki sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×