Fótbolti

Al­fons missir af toppslag eftir að smit kom upp hjá U21 lands­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfons mun missa af leik Bodø/Glimt og Molde síðar í dag.
Alfons mun missa af leik Bodø/Glimt og Molde síðar í dag. Bodø/Glimt

Alfons Sampsted, byrjunarliðsmaður í Bodø/Glimt – toppliði norsku úrvalsdeildarinnar – sem og fyrirliði íslenska U21 árs landsliðsins í knattspyrnu missir af toppslag Bodo/Glimt og Molde í dag þar sem hann er kominn í sóttkví.

Markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson, leikmaður Fredericia í dönsku B-deildinni, greindist með kórónuveiruna er hann sneri aftur til Danmerkur eftir að hafa varið mark Íslands í 2-0 sigri á Lúxemborg í vikunni. Í kjölfarið var fjöldi leikmanna íslenska liðsins settur í sóttkví.

Alfons er meðal þeirra.

Hinn 22 ára gamli Alfons gekk í raðir toppliðs Bodø/Glimt eftir að hafa verið töluverðu flakki undanfarin misseri. Hann samdi við Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni árið 2017 en spilaði lítið sem ekkert með liðinu. Var hann lánaður til Breiðabliks síðasta sumar þar sem hann lék alls átta leiki í Pepsi Max deildinni. Hafði hann spilað 16 leiki með sænska B-deildarliðinu IF Sylvia fyrir það.

Alfons hefur smollið eins og flís við rass í liði Bodø/Glimt og er í raun ekki hægt að tala um toppleik gegn Molde í dag þó liðin séu í fyrsta og þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Alfons og félagar eru í raun hársbreidd frá titlinum þó enn eigi eftir að leika tíu umferðir.

Liðið trónir á toppi deildarinnar með 56 stig og hafa ekki enn tapað leik. Stórlið Rosenborgar kemur þar á eftir með 38 stig og Molde er í þriðja sæti með stigi minna. Bodø/Glimt því með 18 stiga forystu þegar 30 stig eru eftir í pottinum.

Alfons hefur byrjað alla 20 deildarleiki Bodø/Glimt á tímabilinu. Hann hefur einnig leikið frábærlega með U21 árs landsliði Íslands en alls á hann að baki 28 leiki fyrir liðið. Þá hefur hann leikið tvo A-landsleiki og verða þeir eflaust fleiri þegar fram líða stundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×