Innlent

Verk­falls­að­gerðum starfs­manna ál­versins í Straums­vík frestað

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins í Straumsvík.
Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins í Straumsvík. Vísir/Egill

Verkfallsaðgerðum starfsmanna álversins í Straumsvík sem hefjast áttu á morgun hefur verið frestað. Þetta segir Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins, í samtali við Vísi.

Samninganefndir starfsmanna og ISAL sátu á samningafundi í húsakynnum ríkissáttasemjara til ríflega tvö í nótt.

Að sögn Reinholds var gert samkomulag við ISAL sem er bindandi af þeirra hálfu. Samkomulagið sé grundvöllur að kjarasamningi.

„Sem við viljum kannski útvíkka en við höfum grunn sem við getum byggt algjörlega á og vitum að starfsmenn verða ekki óánægðir með,“ segir Reinhold.

Hann var á leið í álverið þegar Vísir náði tali af honum til að kynna samkomulagið fyrir starfsmönnum. Hann vill ekki fara út í hvað í því felst.

Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður á fimmtudaginn í næstu viku. Í millitíðinni munu báðir aðilar fara í ákveðna vinnu hvor í sínu lagi með tilliti til samkomulagsins sem gert var í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×