Veður

Stinningskaldi og snjókoma í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hitaspákort Veðurstofunnar fyrir klukkan 12 í dag sýnir að það verður heldur kalt um allt land.
Hitaspákort Veðurstofunnar fyrir klukkan 12 í dag sýnir að það verður heldur kalt um allt land. Veðurstofa Íslands

Það er spáð norðaustanátt í dag, víða kalda og stinningskalda, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þá verður léttskýjað vestantil á landinu en dálítil snjókoma austanlands þegar kemur fram á daginn. Frost yfirleitt á bilinu núll til átta stig en það hlánar við suðaustur- og austurströndina.

Á morgun er svo spáð norðlægari vindi, skýjuðu veðri og lítilsháttar snjókomu á Norður- og Austurlandi. Hiti um eða undir frostmarki.

Vindur á síðan að vera hægari á miðvikudag, bjart veður og kalt en þykknar upp vestanlands með vaxandi suðaustanátt síðdegis.

Um kvöldið er spáð suðaustan hvassviðri eða stormi með slyddu eða rigningu um landið vestanvert.

Veðurhorfur á landinu:

Gengur í norðaustan 8-15 í dag. Dálítil snjókoma eða él A-lands, en bjartviðri vestantil. Frost 0 til 8 stig, en víða frostlaust við SA- og A-ströndina seinni partinn. Norðlæg átt 5-13 á morgun, skýjað og lítilsháttar snjókoma eða él á N- og A-landi. Hiti um eða undir frostmarki.

Á þriðjudag:

Norðlæg átt 5-13 m/s, skýjað og dálítil snjókoma eða él N- og A-lands. Hiti kringum frostmark, en kólnar seinni partinn.

Á miðvikudag:

Hæg vestlæg átt og bjart með köflum, frost 2 til 10 stig. Vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa V-lands síðdegis, hvassviðri eða stormur og rigning eða slydda V-til á landinu seint um kvöldið.

Á fimmtudag:

Sunnanátt og rigning eða slydda, en úrkomulítið NA-lands. Hiti 2 til 7 stig. Vestlægari og él S- og V-til um kvöldið.

Á föstudag og laugardag:

Suðvestanátt og él, en þurrt á NA-verðu landinu. Hiti kringum frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×