Fullyrt er að ríkisstjórnin vinni að herferðinni í samráði við heilbrigðisyfirvöld. Þau telji nauðsynlegt að velja fólk sem komi því greinilega til skila að fólki sé óhætt að láta bólusetja sig og treysta skilaboðum yfirvalda.
Bent hefur verið á að stærri hópur fólks gæti haft efasemdir um bóluefni gegn kórónuveirunni miðað við aðrar bólusetningar. Er það sagt vera vegna þess hversu stuttan tíma tók að þróa það og fólk óttist jafnvel langtímaafleiðingar sem enn gætu komið í ljós.
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði, benti þó á í samtali við Kompás að öllum eftirlitsferlum væri fylgt. Það væri allra hagur að bóluefnið væri öruggt og enginn afsláttur yrði gefin í þeim efnum.
Traust almennings á bóluefnum hefur aukist undanfarin ár í Evrópu og bentu niðurstöður yfirgripsmikillar könnunar til þess að aðeins sjö prósent Breta myndu ekki kjósa að láta bólusetja sig. Sú könnun var þó framkvæmd í mars, en nýrri kannanir frá því í sumar sýna að allt að fjórtán prósent myndu ekki láta bólusetja sig.
Herferð yfirvalda verður umfangsmikil ef marka má heimildir The Guardian. Auk áhrifavalda munu yfirvöld leita til þekktra lækna, trúarleiðtoga og annarra sem njóta virðingar í sínu nærumhverfi í því skyni að láta þau miðla skilaboðum til sinna fylgjenda.