Lachin er hernaðarlega mikilvægt en það er að finna á um sextíu kílómetra landræmu sem tengir Armeníu við Nagorno-Karabakh. Rússneskir hermenn munu samkvæmt samkomulaginu, sem náðist fyrir um þremur vikum eftir um sex vikna átök, tryggja öryggi á svæðinu.
Nærri allir Armenar á landsvæðunum sem um ræðir hafa flúið heimili sín og ákváðu margir að brenna hús sín og flytja jarðneskar leifar látinna ástvina áður en þau flúðu.
Aserskar hersveitir héldu inn í Lachin í morgun með fulltrúum rússneskra stjórnvalda sem ætlað er að tryggja örugga umferð milli Armeníu og Stepanakert, höfuðborgar Nagorno Karabakh.
Nagorno-Karabakh er að finna innan landamæra Aserbaídsjans en Armenar hafa verið þar í miklum meirihluta og stýrt svæðinu. Ríkin hafa lengi átt í deilum vegna þessa og blossuðu mikil átök upp á svæðinu á ný í haust.
Um tvö þúsund rússneskir hermenn eiga tryggja öryggi á landsvæðunum þremur, en rússnesk stjórnvöld hafa hafnað kröfum Asera um að fá Tyrki einnig að því borði, en Tyrkir og Armenar hafa átt í hatrömmum deilum um langt skeið.