Maðurinn var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars í fyrra. Dómurinn taldi að framburður stúlkunnar hefði ekki þá stoð í öðrum sönnunargögnum sem voru lögð fram í málinu sem nægðu til þess að sakfella manninn gegn eindreginni neitun hans.
Talið var að framburður mannsins hefði verið stöðugur og að ekkert hefði komið fram sem rýrði sönnunargildi hans. Í dómi Landsréttar kom fram að við skýrslutöku í Barnahúsi hafi stúlkan þurft mikla hvatningu frá spyrli og að hún hefði oft gefið takmörkuð og stundum óljós svör. Þá hefði nokkuð borið á leiðandi spurningum um atriði sem fyrri svör hennar hefðu ekki gefið sérstakt tilefni til þess að fara út í.
Framburður stúlkunnar fyrir Landsrétti var aftur á móti talinn skýr og að ekkert hefði komið fram sem rýrði sönnunargildi hans. Það breytti þó ekki niðurstöðu héraðsdóms um að sýkna skyldi manninn vegna skorts á öðrum sönnunargögnum. Staðfesti Landsréttur því sýknuna.
Í ákæru hafði manninum verið gefið að sök að hafa áreitt stúlkuna kynferðislega á sameiginlegu heimili þeirra á árunum 2013 til 2015. Hann hafi meðal anars átt að hafa snert kynfæri hennar og brjóst og í eitt skipti haft við hana kynferðismök önnur en samræði með því að sleikja kynfæri hennar. Maðurinn neitaði staðfastlega sök.
Stúlkan, þá tólf ára gömul, lýsti því í Barnahúsi að maðurinn hefði einhvern tímann sagt við hana að þetta væri „litla leyndarmálið“ þeirra og að hún ætti ekki að segja móður sinni eða börnum hans frá því.