Stjórnvöld tilkynntu í síðustu viku að bólusetningar muni hefjast á fyrstu vikum nýs árs og að markmiðið sé að ná hjarðónæmi við kórónuveirunni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs. Framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair segir marga Íslendinga hafa brugðist þessum fréttum með því að bóka ferð út í lönd.
„Við erum farin að sjá töluverða aukningu bókana. Bæði inn í byrjun í byrjun ársins og ekki síst frá apríl og inn í lok ársins,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair.
Hvert ætlar fólk að fara?
„Annars vegar sólarborgirnar, Madrid og Tenerife, og suðlægar slóðir í sumar. Og hins vegar stórborgir á borð við London, Frankfurt, Berlín og í Skandinavíu.“
Fjöldi Íslendinga smitaðist af veirunni í skíðaferðum í Evrópu í fyrra.
Er fólk að treysta sér í skíðaferðir?
„Við erum aðeins að sjá það. Það er merkjanleg aukning bókana í febrúar til Þýskalands. Þannig að það má gera ráð fyrir því.“
Erlendir ferðamenn eru farnir að horfa til Íslands.
„En ekkert í sama magni og undanfarin ár. En viðbrögðin síðustu vikur, sérstaklega Evrópumegin, töluvert góð. Svo erum við farin að sjá Bandaríkjamenn gera plön inn í haustið til að heimsækja okkur.“
Max-þoturnar verða teknar inn í sumaráætlunina.
„Við notum þá byrjun ársins og vorið til að undirbúa okkar. Það verður líklega síðan á vormánuðum sem við tökum þær inn.“