„Já við höfum fengið smá skorpu núna, það er út af smá klasasmiti bara sem verið er að vinna í. Við erum búnir að flytja núna frá klukkan hálf átta í kvöld átta með staðfest smit,“ segir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu.
„Við erum að fá sex úr sama húsnæðinu,“ segir hann.
Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að smitrakning sé enn í gangi en að á morgun ætti að vera ljóst hvort að um hópsmit sé að ræða.
Jóhann segir einnig að miklu máli skipti þegar tölur eru skoðaðar að meta þær annars vegar út frá smitum og hins vegar hversu margir sem voru smitaðir voru í sóttkví við greiningu.
Tölurnar yfir hve margir hafa greinst í gær verða ekki birtar fyrr en á morgun. Mbl.is greindi fyrst frá klasasmitinu.
Fjórir greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær en báða dagana tvo þar á undan greindust átta smitaðir.
Fréttin hefur verið uppfærð.