Mennirnir eru sagðir hafa tekið upp glæpi sína og birt myndböndin á samfélagsmiðlum. Tveir hermenn til viðbótar voru handteknir grunaðir um að hafa eyðilagt legsteina Armeníumanna.
Ríkissaksóknari Aserbaídsjan sagði að tilfellin gengju þvert á hugmyndir og viðhorf Asersku þjóðarinnar.
Aserbaídsjan og Armenía skrifuðu undir friðarsamning í byrjun nóvember og hafa þegar hafið fangaskipti, en þau fyrstu fóru fram í dag.
Héraðið Nagorno-Karabakh hefur lengi verið deiluefni Armena og Asera. Héraðið er hluti af Aserbaídsjan en meirihluti íbúa þess er af Armenskum uppruna og hefur armenski meirihlutinn farið með stjórn þess frá því að sex ára stríði milli ríkjanna um svæðið lauk árið 1994.
Átök milli ríkjanna hófust að nýju vegna héraðsins í lok september síðastliðnum og féllu um fimm þúsund hermenn úr báðum fylkingum. Minnst 143 almennir borgarar dóu í átökunum og þúsundir þurftu að flýja heimili sín.
Rússar komu að gerð friðarsamnings milli ríkjanna tveggja í byrjun nóvember en báðar hliðar hafa sakað hina um að hafa brotið friðarsamninginn.
Varnarmálaráðuneyti Aserbaídsjan tilkynnti á sunnudag að fjórir aserskir hermenn hafi fallið í nýlegum átöku í héraðinu. Þá hefur Armenía sagt að sex af hermönnum þeirra hafi særst þegar Aserskar hersveitir gerðu atlögu að þeim.