Erlent

Í fyrsta sinn frá upp­hafi greindust yfir 40 þúsund á einum degi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa vaxandi áhyggju af mikilli fjölgun covid-19 smitaðra þar í landi. Mikið álag er á heilbrigðiskerfið sem stendur. 
Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa vaxandi áhyggju af mikilli fjölgun covid-19 smitaðra þar í landi. Mikið álag er á heilbrigðiskerfið sem stendur.  EPA/VICKIE FLORES

Mjög mikil fjölgun þeirra sem smitast hafa af kórónuveirunni í Englandi veldur heilbrigðisyfirvöldum þar í landi vaxandi áhyggjum. Heilbrigðisstofnanir eiga æ erfiðara með að bregðast við fjölgun sjúklinga sem þurfa að leggjast inn. Í fyrsta sinn frá upphafi faraldursins greindust yfir fjörutíu þúsund með covid-19 á einum degi í Bretlandi.

Í dag bættust 41.385 í hóp smitaðra og 357 til viðbótar eru látnir í Bretlandi af völdum covid-19. Enn vantar þó upp á tölfræðina vegna síðasta sólarhrings þar sem takmarkaðar upplýsingar eru birtar yfir jólin frá Skotlandi og Norður-Írlandi að því er fram kemur í frétt BBC.

„Þrátt fyrir metfjölda smita er von í sjónmáli,“ er haft eftir Yvonne Doyle, lækni hjá enska landlæknisembættinu. Hún hvetur almenning til að halda áfram að sinna persónubundnum sóttvörnum og leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar, nú þegar bóluefni Pfizer/BioNTech er þegar komið í dreifingu, en bólusetning er þegar hafin í Bretlandi.

„Þessi mikla fjölgun smitaðra er vaxandi áhyggjuefni nú á þeim tímapunkti sem spítalarnir okkar eru á viðkvæm stigi, þar sem innlögðum fjölgar á mörgum svæðum,“ segir Doyle.

Tölur dagsins í dag yfir ný tilfelli covid-19 eru þær hæstu frá upphafi faraldursins og í fyrsta sinn sem yfir fjörutíu þúsund smit eru staðfest. Aftur á móti þykir líklegt að raunverulegur fjöldi smita hafi verið hærri á hápunkti fyrstu bylgju faraldursins í apríl en á þeim tíma var afkastageta við sýnatöku mun minni svo ætla má að færri smit hafi verið staðfest en raunverulega voru til staðar í samfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×