LeBron James, einn þekktasti íþróttamaður aldarinnar, er sem stendur leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni. Þrátt fyrir að vera orðinn 35 ára gamall er hann við hestaheilsu og er enn að slá met. Það á sínu 17 ári í deildinni.
Á sínum tíma var James þó einnig mjög frambærilegur í því sem Bandaríkjamenn kalla fótbolta. Hvort LeBron hafi verið nægilega öflugur til að geta farið alla leið í NFL-deildina verður ósagt látið en hann var samt sem áður talinn efnilegasti leikmaður Ohio-fylkis á sínum tíma.
Hann rifjar þetta upp á Instagram í dag en hann greip knöttinn, ef knött skyldi kalla, 60 sinnum ásamt því að hlaupa 1200 yarda (1097 metra) og skora 16 snertimörk. Ekki amagaleg tölfræði það.
Var honum meðal annars líkt við Randy Moss, hávaxnari og hægari útgáfu.
Lebron segir jafnframtað hann hefði viljað spila á síðasta ári sínu í gagnfræðiskóla en vinir hans í körfuboltaliðinu hafi einfaldlega ekki leyft honum það. Þeir hafi í gríni hótað að lemja hann ef hann gerðist svo djarfur að stinga niður fæti á fótboltavelli skólans.
The real reason Bron skipped football in his senior year pic.twitter.com/nG9XK1Xpk2
— Bleacher Report (@BleacherReport) March 22, 2020
Vinir hans þurftu sem betur fer aldrei að standa við stóru orðin og fór það svo að LeBron ákvað að leggja körfubolta alfarið fyrir sig. Sú ákvörðun hefur heldur betur reynst honum vel en hann var aðeins 18 ára gamall þegar hann skráði sig í nýliðaval NBA-deildarinnar. Síðan þá hefur hann átt 17 ára farsælan feril í deildinni sem og með bandaríska landsliðinu.
James hefur leikið með Cleveland Cavaliers, Miami Heat og Los Angeles Lakers á ferli sínum. Hann varð meistari með Miami tvívegis sem og hann skilaði fyrsta titli Cleveland-borgar í 52 ár þegar Cavs áttu eina ótrúlegustu endurkomu íþróttasögunnar árið 2016. Liðið var þá 3-1 undir í leikjum gegn Golden State Warriors en unnu næstu þrjá leiki og þar með úrslitaeinvígið 4-3.
Þá hefur rifið Lakers aftur upp í hæstu hæðir en félagið er sem stendur besta lið Vesturstrandarinnar.
NBA-deildin er þó, líkt og flest allar deildir víðsvegar um heim, á pásu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og óvíst hvenær hún getur hafist á ný.