Skoðun

Víðir Reynis og samfélagslegi sáttmálinn

Halldóra Þorsteinsdóttir skrifar

Á daglegum upplýsingafundi almannavarna og lögreglunnar á dögunum lagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn til að Íslendingar gerðu með sér samfélagslegan sáttmála þar sem tilteknum gildum yrði haldið í heiðri. Eins og með flest sem kemur frá þessum nýja leiðtoga á þessum síðustu og verstu tímum var tillögunum vel tekið. Einn liður tillagnanna fór þó fyrir brjóstið á sumum. Það var tillaga um að styðjast við fréttir frá „traustu fréttamiðlunum sem eru ritstýrðir og sýna okkur rétta mynd á hlutina“. Virðist þeim hafa þótt þetta bera með sér einkenni einhvers konar ritskoðunar eða stjórn á fjölmiðlaumræðu á Íslandi. Viðbrögðin við þessari saklausu ábendingu Víðis eru ekki ný af nálinni þegar rætt er um fjölmiðla. Málið er því kjörið tilefni til þess að draga fram nokkur atriði um fjölmiðlafrelsið.

Þegar höfð er hliðsjón af þremur meginþáttum ríkisvaldsins; löggjafarvaldinu, framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu, hefur fjölmiðlum stundum verið lýst sem „fjórða valdinu“. Fjölmiðlar hafa veigamiklu hlutverki að gegna þegar kemur að þeirri kröfu almennings að búa í upplýstu og lýðræðislegu samfélagi. Þeir eru ekki einungis vettvangur upplýsingamiðlunar, fræðslu og opinberrar umræðu, heldur hafa þeir ríkt aðhaldshlutverk gagnvart hinu opinbera og öðru því sem við kemur almenningi. Vegna þessa hlutverks er mikilvægt að frelsi fjölmiðla sé ríkt og að þeim sé búið viðunandi umhverfi svo þeir fái þrifist með sjálfbærum hætti. Tjáningarfrelsi þeirra er enda varið í stjórnarskránni og ýmsum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og inngrip í það frelsi telst almennt varhugavert nema veigamiklar ástæður komi til.

Að því sögðu er rétt að minna á að tjáningarfrelsi fjölmiðla er ekki óheft. Fjölmiðlar búa við lög og reglur sem ætlað er tryggja að þeir ræki fyrrgreindar skyldur sínar í samræmi við almannahagsmuni og vernd annarra stjórnarskrárvarinna hagsmuna. Bæði á vettvangi íslenskra dómstóla, Mannréttindadómstóls Evrópu og annarra alþjóðastofnana hefur því þannig verið slegið föstu að fjölmiðlafrelsið sé beinlínis háð þeirri forsendu að fjölmiðlar ræki störf sín í samræmi við heilbrigða blaðamannshætti, veiti réttar og áreiðanlegar upplýsingar og starfi með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þessar reglur hafa mótast vegna þeirrar augljósu staðreyndar að vald fjölmiðla sem vettvangur opinberrar umræðu er verulegt og þykir eðlilegt, rétt eins og með aðra valdhafa, að það vald sé temprað að einhverju leyti. Fjölmiðlafólk á t.d. almennt ekki að ganga erinda eigenda sinna eða utanaðkomandi fjármuna og fréttir í þágu vafasamra hagsmuna eru ósamrýmanlegar þeim gildum sem fjölmiðlar starfa eftir.

Langflestir fjölmiðlar fara vel með fyrrgreint frelsi sitt og flestar fréttir eru í þágu þeirra markmiða sem áður er lýst. Það breytir því ekki að til eru dæmi um fjölmiðla sem hafa í einhverjum tilvikum sofnað á verðinum og misst sjónar á hlutverki sínu. Við þekkjum öll dæmi þess að fjölmiðill hafi misfarið með tjáningarfrelsi sitt með þeim afleiðingum að stjórnarskrárvarin réttindi annarra voru fótum troðin. Við þekkjum líka dæmi um að fyrirsögnum hafi verið snúið á hvolf í því augnamiði að kalla fram tiltekin viðbrögð án þess að nokkur fótur hafi verið fyrir slíkum æfingum. Og við þekkjum dæmi um að aðrir hagsmunir en almannahagsmunir hafi ráðið för við vinnslu frétta.

Það leiðir af framangreindu að það er ekki bara eðlilegt að ræða störf fjölmiðla heldur nauðsynlegt að gagnrýnni hugsun sé haldið á lofti um þá eins og annað í samfélaginu. Óþol fyrir ummælum á borð við „trausta fréttamiðla“ og afneitun á umræðu um að munur kunni að vera á gæðum einstakra frétta er ekki í takt við það hlutverk fjölmiðlafólks að viðhalda frjálsri og upplýstri umræðu. Eins og við ræðum „heiðarlega stjórnmálamenn“, „traust fyrirtæki“ og „góða skóla“ er ekkert að því að viðra þá staðreynd að til séu traustari fjölmiðlar en aðrir. Það leiðir ennfremur af hlutverki fjölmiðla að þeir ættu að fagna umræðu um eigin störf og falla ekki í þá gryfju að veita afslátt af almannahagsmunum þegar kemur að umræðu um þá sjálfa. Aðhald með fjölmiðlum felur nefnilega ekki í sér ritskoðun. Það er þvert á móti þáttur í að ná fram þeim markmiðum sem fjölmiðlafrelsinu er ætlað að tryggja. Viðmiðið um frjálsa lýðræðislega umræðu á m.ö.o. líka við í tilviki umfjöllunar um fjölmiðla. Hér skal að lokum bent á að með ummælum sínum tiltók Víðir ekki ákveðna fjölmiðla frekar en aðra. Hann minnti okkur einfaldlega góðfúslega á að viðhalda gagnrýnni hugsun og leita eftir traustum fréttaflutningi. Ef það á einhvern tímann við er það á tímum sem þessum.

Höfundur er lektor og kennari í fjölmiðlarétti.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×