Fótbolti

Segir De Bru­yne besta sendingar­mann í sögu ensku úr­vals­deildarinnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
De Bruyne skorar af öryggi gegn Real Madrid í Meistaradeildinni.
De Bruyne skorar af öryggi gegn Real Madrid í Meistaradeildinni. vísir/getty

Jamie Redknapp segir að Belginn Kevin de Bruyne sé besti leikmaður tímabilsins í enska boltanum og bætir við að hann sé besti sendingarmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Sky Sports hefur verið að kryfja tímabilið í þaula í hléinu sem var gert vegna kórónuveirunnar og Redknapp er yfir sig hrifinn af Belganum. Þrátt fyrir 25 stiga forskot Liverpool er Redknapp hrifnastur af De Bruyne:

„Það hafa verið margar frábærar frammistöður á tímabilinu en Kevin De Bruyne hefur verið algjörlega stórkostlegur,“ sagði Redknapp.

„Tölfræðin hans á þessari leiktíð er sú besta í sögunni og ef allt City-liðið hefði verið jafn stöðugt og hann þá væru þeir líklega í samkeppni við Liverpool. Fyrir mig þá stendur hann út úr þegar þú horfir á mörkin hans og stoðsendingar.“

„Tölfræðin hjá honum er bara miklu betri en hjá öllum öðrum. Fyrir utan Liverpool-liðið þá er það bara hann sem þú getur nefnt sem hefur verið góður og hefur skinið eins og stjarna í þessu City-liði á þessum tímapunkti.“

„Ég myndi segja að hann væri besti sendingarmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Og þar með eru taldir leikmenn eins og David Beckham, Paul Scholes og allir. Hann getur gefið svo margar mismunandi sendingar,“ sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×