Samkvæmt útboðsauglýsingu mun þverun Þorskafjarðar standa yfir næstu þrjú ár. Í verkinu felst nýbygging Vestfjarðavegar á 2,7 kílómetra kafla yfir Þorskafjörð og bygging 260 metra langrar brúar.

Frestur til að skila inn tilboðum rennur út 16. febrúar næstkomandi. Miðað er við að framkvæmdir hefjist í kringum mánaðamótin mars-apríl og að verkinu verði að fullu lokið 30. júní árið 2024.
Þetta er annar áfanginn í þeirri umfangsmiklu vegagerð sem framundan er með endurbótum Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Sá fyrsti er sjö kílómetra kafli milli Skálaness og Gufudals í vestanverðum Gufufirði. Mikil umsvif blasa því við í Reykhólahreppi næstu árin.

„Hér verður heilmikið um að vera. Við vorum á fundi með Vegagerðinni um daginn þar sem þeir sögðu að ef þeir geta keypt þjónustu fyrir verktaka í heimabyggð þá er það náttúrlega langbesti kosturinn,“ segir Jóhanna Ösp Einarsdóttir, hreppsnefndarfulltrúi og íbúi í Fremri-Gufudal, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
„Það á alveg að geta skapað atvinnutækifæri fyrir heimamenn. Í mötuneyti, í vegagerð, í að leigja út gististaðina sína,“ segir Jóhanna.

Og það er einmitt það sem menn sjá nú þegar í fyrsta áfanganum sem byrjað var á í Gufufirði í haust. Borgarverk er þar með þrjá heimamenn í vinnu auk þess sem verktakinn kaupir gistingu og fæði í Gufudal.
Það er hins vegar enn óvissa um næstu áfanga, þar með kaflann um hinn umdeilda Teigsskóg.
„Staðan er þannig í dag að það svo sem liggur ekkert á borðinu um frekari aðgerðir af hálfu landeigenda eða annarra aðila. Þannig að við höfum ekkert neitt á borðinu ennþá,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, sem hefur þann fyrirvara að ennþá séu óútkljáðir samningar við landeigendur um að farið verði í gegnum lönd þeirra.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar standa yfir viðræður við landeigendur og óvíst hvort leita þurfi eignarnáms.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: