Körfubolti

NBA dagsins: Nýklipptur og nýrakaður en ennþá sami „Jókerinn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic sést hér á ferðinni með Denver Nuggets á móti Oklahoma City Thunder í nótt.
Nikola Jokic sést hér á ferðinni með Denver Nuggets á móti Oklahoma City Thunder í nótt. AP/David Zalubowski)

Nikola Jokic sýndi það enn á ný í nótt hversu frábær körfuboltamaður hann er.

Nikola Jokic lék aðeins fyrstu þrjá leikhlutana í 119-101 sigri Denver Nuggets á Oklahoma City Thunder. Á aðeins 28 mínútum var hann með 27 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar.

Jokic mætti nýklipptur og nýrakaður til leiks en hélt áfram að sprengja upp varnir mótherja sinna með leikskilningi sínum og útsjónarsemi. Ekki hraðasti maðurinn á vellinum en líklega oftast sá klókasti.

„Hann fær ekki það hrós sem hann á skilið en kannski er það vegna þess að hann er með neinar tilþrifatroðslur. Hann er með tilfinningu í puttunum sem ég hef aldrei séð áður. Hann endar án efa í heiðurshöllinni,“ sagði Monte Morris um liðsfélaga sinn.

Jokic gaf tóninn strax í byrjun og skoraði fimmtán af fyrst 28 stigum Denver liðsins. Hann hefði eflaust skilað hærri tölum ef liðið hefði þurft á því að halda en sigurinn var aldrei í hættu eftir frábæra byrjun.

Nikola Jokic er með 25,1 stig, 11,4 fráköst og 10,0 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu fjórtán leikjunum en hann er efstur í stoðsendingum í deildinni þrátt fyrir að vera 211 sentímetra miðherji.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leiknum sem og bestu tilþrifin frá nóttinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×