Körfubolti

Sögulega góður leikur hjá Jaylen Brown

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jaylen Brown skorar tvö af 33 stigum sínum gegn Cleveland Cavaliers.
Jaylen Brown skorar tvö af 33 stigum sínum gegn Cleveland Cavaliers. getty/Maddie Meyer

Boston Celtics bauð til sóknarveislu þegar liðið sigraði Cleveland Cavaliers, 141-103, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Boston-menn voru sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum og hittu úr helmingi skota sinna þaðan. Jaylen Brown fór mikinn og skoraði 33 stig á aðeins nítján mínútum, þar af tuttugu stig í 3. leikhluta. 

Frá því skotklukkan var tekin upp tímabilið 1954-55 hefur enginn leikmaður skorað jafn mörg stig á minna en tuttugu mínútum en Brown gerði gegn Cleveland í nótt.

Kemba Walker skoraði 21 stig fyrir Boston sem er enn án Jaysons Tatum. Þetta var fyrsti sigur Boston í fjórum leikjum á meðan Cleveland hafði unnið þrjá leiki í röð fyrir leikinn í nótt.

Kawhi Leonard fór fyrir Los Angeles Clippers sem vann Oklahoma City Thunder, 108-100. Hann skoraði 34 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Serge Ibaka skoraði sautján stig fyrir Clippers sem hefur unnið sjö leiki í röð og komið sér fyrir á toppi Vesturdeildarinnar.

Gordon Hayward var hetja Charlotte Hornets sem sigraði Orlando Magic, 104-107, á útivelli. Hann skoraði 39 stig, þar á meðal sigurkörfuna þegar 0,7 sekúndur voru eftir af leiknum.

Sigurinn var kærkominn fyrir Charlotte sem hafði tapað þremur leikjum í röð fyrir leikinn í nótt. Hayward hitti úr fimmtán af 25 skotum sínum, þar af fimm af átta skotum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Giannis Antetokounmpo skoraði 27 stig, tók fjórtán fráköst og gaf átta stoðsendingar þegar Milwaukee Bucks vann Atlanta Hawks, 129-115, á heimavelli. Milwaukee er í 2. sæti Austurdeildarinnar á eftir Philadelphia 76ers sem lék ekki í nótt.

Damian Lillard var í miklu stuði þegar Portland Trail Blazers sigraði New York Knicks, 116-113. Hann skoraði 39 stig og gaf átta stoðsendingar. Portland er í 4. sæti Vesturdeildarinnar.

Úrslit næturinnar

  • Boston 141-103 Cleveland
  • LA Clippers 108-100 Oklahoma
  • Orlando 104-107 Charlotte
  • Milwaukee 129-115 Atlanta
  • Portland 116-113 NY Knicks
  • San Antonio 121-101 Washington
  • Indiana 102-107 Toronto

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×