Dagur meiddist á hné í leik Grindavíkur og Njarðvíkur á fimmtudaginn. Garðbæingurinn fór mikinn áður en hann meiddist og sett niður fjögur þriggja stiga skot í fjórum tilraunum. Grindavík tapaði leiknum, 81-78.
Dagur meiddist illa á hné á síðasta tímabili og hjarta Grindvíkinga tók eflaust aukakipp þegar hann þurfti að fara af velli á föstudaginn.
„Það er ekkert nýtt að frétta. Við eigum eftir að fá úr myndatöku og þá tökum við stöðuna,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, við Vísi í dag.
Dagur verður allavega fjarri góðu gamni þegar Grindavík fær hans gamla lið, Stjörnuna, í heimsókn í lokaleik 7. umferðar Domino's deildarinnar í kvöld.
Bandaríkjamaðurinn Eric Wise hafði sig lítið í frammi í leiknum gegn Njarðvík í Domino's Körfuboltakvöldi var því velt upp hvort hann væri meiddur. Aðspurður sagði Daníel að Wise yrði með í kvöld.
„Hann tók þátt í síðasta leik og tekur aftur þátt í kvöld,“ sagði þjálfarinn.
Leikur Grindavíkur og Stjörnunnar hefst klukkan 20:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Að honum loknum verður 7. umferð Domino's deildar karla gerð upp í Domino's Körfuboltakvöldi.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.