Fréttablaðið segir frá þessu þar sem meðal annars er rætt við Benjamín Magnússon arkitekt með lengi hefur rekið stofu í Hamraborginni og teiknaði meðal annars sjálfa Hamraborgina. Hafi hann átt fund með fulltrúum bæjarins fyrir fimm árum og þrýst á að eftirlitsmyndavélum yrði komið upp. Ekkert hafi þó gerst í þeim efnum.
Samráðsfundur um skipulagsmál í Hamraborg var svo haldinn á vegum Kópavogsbæjar fyrir um hálfum mánuði þar sem fundarmenn eru sagðir hafa viðrað áhyggjur sínar af glæpastarfsemi á svæðinu. Var nefnt að ástandið væri sérstaklega slæmt á bílastæðunum við Hamraborg 10-12 og svo Fannborg 4 og 6, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins.
Haft er eftir upplýsingafulltrúa bæjarins að endurtekin fíkniefnaviðskipti hafi verið tilkynnt til lögreglu af fulltrúum bæjarins.