Konan var jafnframt til fimm ára ökuréttissviptingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, alls rúmar tvær milljónir króna. Samkvæmt sakarvottorði hafði konan áður gerst sek um brot gegn umferðarlögum.
Í dómnum kemur fram að matsgerðir rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði sýni fram á að konan hafi verið óhæf til að stjórna ökutæki örugglega í þeim tilvikum sem rakin voru í ákæru. Það hafi sömuleiðis verið samdóma álit þeirra lögreglumanna sem höfðu afskipti af konunni í þessi sjö skipti að hún hafi ekki verið nokkru ástandi til að aka bíl.
Konan var sömuleiðis dæmd fyrir skjalabrot fyrir að hafa ekið bíl með röngu skráningarmerki að framan. Bar hún því við að bílnum hafi verið stolið og þegar hann hafi fundist á ný hafi hún ekki gert sér greint fyrir því að hún væri á röngum skráningarmerkjum. Dómari tók þó ekki slíkt til greina þar sem ákvæði umferðarlaga geri ráð fyrir að eiganda eða umráðamanni bíls beri ábyrgð á skráningu þess í ökutækjaskrá og að skráningarmerki sé sett á það áður en það sé tekið í notkun.
Vottorð gefið út löngu síðar
Konan fór fram á að verða ekki svipt ökurétti með vísun í umferðarlög þar sem kveðið er á að ökumaður skuli ekki beittur viðurlögum, ef hann hafi meðferðis við stjórn ökutækis læknisvottorð sem sýni fram á að hann sé haldinn tilteknum sjúkdómi eða ástandi sem skýri neyslu efna sem mælist í blóði og þá verið hæfur til að stjórna bílnum að mati læknis.
Konan hafi hins vegar ekki uppfyllt neitt skilyrðanna sem þar er kveðið á um og vottorð geðlæknis dugi ekki til að sleppa við ökuréttarsvipitingu, enda hafi umrætt vottorð verið gefið út löngu eftir brot konunnar. Þar sem um ítrekað brot hafi verið að ræða af hálfu konunnar og með hliðsjón af fjölda brotanna var svipting hennar ákveðin fimm ár frá maí 2020 að telja.
Konunni er gert að greiða sektina til ríkissjóðs, 2,5 milljónir króna, innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en ella sæti hún fangelsi í 68 daga.