Innlent

Braut rúðu í lög­reglu­bíl

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn og annar farþegi í bílnum voru fluttir í fangageymslur lögreglu.
Maðurinn og annar farþegi í bílnum voru fluttir í fangageymslur lögreglu. Vísir/Vilhelm

Maður braut rúðu í lögreglubíl í Hafnarfirði í gærkvöldi eftir að lögregla hafði stöðvað hann vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Í dagbók lögreglu kemur fram að atvikið hafi átt sér stað skömmu fyrir ellefu. Er maðurinn einnig grunaður um að hafa ítrekað ekið bíl án ökuréttinda, vörslu fíkniefna og eignaspjöll, það er rúðubrotið.

„Ökumaðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Farþegi í bifreiðinni var handtekinn grunaður um vörslu fíkniefna og var hann einnig vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.“

Ítrekað tilkynnt um mann með vandræði

Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að um klukkan 20 í gærkvöldi afskipti verið höfð af manni í miðborg Reykjavík. Reyndist hann vera eftirlýstur og einnig grunaður um vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu.

Um svipað leyti var ítrekað tilkynnt um mann í annarlegu ástandi með vandræði í miðborginni. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu sökum ástands síns.

Slasaðist á öxl

Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi var svo tilkynnt um slys á gönguleið í hverfi 271. Göngukona hafði þar dottið á merktri gönguleið við Lala (nálægt Hafravatni). 

Konan reyndist vera með áverka á öxl og var hún flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×