Erlent

Menn taldir hafa eyði­lagt eða eytt stærstum hluta regn­skóganna

Kjartan Kjartansson skrifar
Á Indónesíu hefur mikið skóglendi verið rutt til að rýma til fyrir ræktun fyrir pálmaolíu. Myndin er frá Aceh-héraði.
Á Indónesíu hefur mikið skóglendi verið rutt til að rýma til fyrir ræktun fyrir pálmaolíu. Myndin er frá Aceh-héraði. Vísir/EPA

Um tveir þriðju hlutar regnskóga jarðarinnar hafa verið eyðilagðir eða eyddir vegna athafna manna. Meira en helmingurinn skógareyðingarinnar frá árinu 2002 hefur átt sér stað í Amasonfrumskóginum og öðrum regnskógum í nágrenni hans í Suður-Ameríku.

Niðurstöður greiningar félagasamtakanna Regnskógasjóðs Noregs eru að menn hafi eytt um 34% upprunalegra regnskóga á jörðinni með skógarhöggi og með því að ryðja skóg fyrir landbúnað og önnur nyt. Menn hafi einnig eytt um 30% skóglendisins og gert það viðkvæmara fyrir eldum og frekari eyðingu í framtíðinni, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Eyðing regnskóganna er nú stór þáttur í losun manna á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum en gríðarlegt magn kolefnis er bundið í regnskógunum. Skógurinn sem eftir stendur á jafnframt erfiðara uppdráttar í breyttu loftslagi.

„Þetta er ógnvekjandi vítahringur. Eyðingin bara frá 2002 til 2019 var stærra landsvæði en Frakkland,“ segir Anders Krogh, höfundur skýrslunnar.

Hratt hefur gengið á Amasonregnskóginn í Brasilíu. Bændur og jarðabraskarar hafa brennt fleiri hektara skóglendis til að búa til pláss fyrir ræktun á sojabaunum, nautgripur og nytjajurtum. Ástandið er sagt hafa versnað eftir að Jair Bolsonaro tók við embætti forseta árið 2019 og gróf undan umhverfisreglugerðum og eftirliti með þeim.

Krogh segir að besta vonin til að verja þá regnskóga sem eftir eru sé einnig í Amason. Frumskógurinn þar ásamt Orinoco- og Andes-regnskógunum í nágrenninu eru saman um 73,5% allra regnskóga sem eftir eru á jörðinni.

Næstmest er eyðingin á eyjum Suðaustur-Asíu, sérstaklega Indónesíu. Þar hefur skógur verið ruddur af miklum móð til að rýma til fyrir framleiðslu á pálmaolíu sem er notuð í allt frá matvælum til snyrtivara og iðnaðar.

Í Mið-Afríku er eyðingin mest á vatnasvæði Kongófljóts. Eins og annars staðar er það landbúnaður og skógarhögg sem gengur nærri regnskóginum.

Á kortinu frá Google Earth Engine hér fyrir neðan má sjá glöggt eyðingu regnskógar í Rodonia í Brasilíu frá 1984 til 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×