Körfubolti

Blake Griffin ætlar að ná sér í titil með stórskotaliði Brooklyn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blake Griffin klárar kom til Detroit Pistons um mitt tímabil 2017-18. Hann er nú farinn til Brooklyn Nets.
Blake Griffin klárar kom til Detroit Pistons um mitt tímabil 2017-18. Hann er nú farinn til Brooklyn Nets. getty/Thearon W. Henderson

Körfuboltamaðurinn Blake Griffin hefur náð samkomulagi við Brooklyn Nets og mun klára tímabilið með liðinu í NBA-deildinni.

Umboðsmaður Griffins staðfesti þetta við ESPN. Griffin rifti samningi sínum við Detroit Pistons á föstudaginn og mörg af sterkustu liðum NBA höfðu áhuga á að fá Griffin sem var einn besti leikmaður deildarinnar á sínum tíma.

Meiðsli hafa hægt verulega á hinum 31 árs Griffin sem er ekki sami háloftafuglinn og hann var þegar hann lék með Los Angeles Clippers. Í tuttugu leikjum með Detroit á þessu tímabili var Griffin með 12,3 stig, 5,2 fráköst og 3,9 stoðsendingar að meðaltali.

Talið er að Griffin verði notaður sem varamiðherji hjá Brooklyn sem þykir afar líklegt til afreka í vetur með stjörnuleikmennina Kevin Durant, Kyrie Irving og James Harden í broddi fylkingar.

Griffin hefur ekki náð orðið NBA-meistari á ferlinum en sér væntanlega tækifæri til þess með stórskotaliði Brooklyn.

Griffin var valinn nýliði ársins í NBA 2011. Hann hefur sex sinnum leikið í stjörnuleiknum og þrisvar sinnum verið valinn í annað úrvalslið deildarinnar og tvisvar sinnum í þriðja úrvalsliðið.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×