Tæknifyrirtækið Park Now þróar og rekur þjónustu sem gerir fólki kleift að bóka og borga fyrir bílastæði, deilibíla og notkun hleðslustöðva í Evrópu, Norður-Ameríku og Suður-Ameríku. Samningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda.
EasyPark Group keypti íslensku bílastæðaþjónustuna Leggja í lok árs 2019 og heldur sömuleiðis úti appi sem notað er til að borga fyrir bílastæði og notkun hleðslustöðva fyrir rafbíla. Fram kemur í tilkynningu frá EasyPark að fyrirhuguð yfirtaka á Park Now muni færa fyrirtækið nær því að verða „í fararbroddi á sviði snjallþjónustu“ og gera því kleift að útvíkka starfsemi sína til fleiri markaða. Þá sé sameinað fyrirtæki betur í stakk búið að knýja áframhaldandi vöxt á alþjóðavísu.
Bandaríski viðskiptamiðillinn Bloomberg greindi frá því í byrjun febrúar að þýsku bílaframleiðendurnir væru í viðræðum sænska samkeppnisaðilann um mögulega sölu á rekstri Park Now.
Salan er sögð vera hluti af þeirri stefnu stjórnenda að einbeita sér betur að kjarnastarfsemi lúxusbílaframleiðandanna. Daimler tilkynnti í byrjun febrúar að til stæði að aðskilja vörubílasvið fyrirtækisins frá öðrum rekstri og skrá Daimler Truck á hlutabréfamarkað í Frankfurt. Í kjölfarið hyggst Daimler taka upp nafn Mercedes-Benz, síns þekktasta vörumerkis.